8. ágúst 2014

Ertu þreytt(ur) á að slá?


En þarftu þess? Hvað er í garðinum þínum? Gras,tré,runnar, blómabeð og grindverk? Hvers vegna er akkúrat þetta í þínum garði? Ákvaðst þú það sjálf(ur)?
Afhverju gras í garðinn? Sem dæmi um hvernig notkun grasflata hefur breyst í gegnum tíðina má nefna að þegar Reykjavík varð kaupstaður árið 1786 voru grasflatir og tún alls ekki notaðar sem skraut heldur var heyjað fyrir húsdýr á bænum eða nýtt til beitar. Einnig tíðkaðist í miklum mæli að halda kálgarða, mun meiri mæli en gert er við einka hús í dag.
Til þess að setja þetta í samhengi getum við tekið Grafarvog sem dæmi en þar eru 6216 heimili, þar af eru 3108 rað- og einbýlishús. Meðal garður við rað-og einbýlishús er 600 fm2. Ef við áætlum að a.m.k helmingurinn af hverjum garði sé bara gras gerir það  932400 fm, það eru hvorki meira né minna en 115 fótboltavellir.
Hin almenna notkun á grasflöt í dag er til leiks og fyrir gæludýr en flestir gera lítið annað en að horfa á það og bísnast kannski smávegis yfir að þurfa að slá það.
En hvers vegna er grasið þarna? Oftast bara vegna þess að það var einfaldasta lausnin fyrir byggingaverktakann sem þarf að skila af sér húsi í ákveðnu standi. Kannski er þetta bara hefð og vani. Við Íslendingar lítum líka mikið til Bandaríkjamanna á mörgum sviðum mannlífsins og einnig hvað varðar landslagsarkítektúr. Þar í landi er óhemju mikið af stórum grasflötum.

Vistvænni lausn: Það má alveg hafa ýmislegt annað í garðinum. Af hverju ekki að rækta sínar eigin gulrætur og eiga eitthvað fram á veturinn og þurfa þá ekki að kaupa erlendar gulrætur? Það hlýtur að vera vistvænna. Það er nóg að hugsa útí olíuna sem fer í að flytja grænmeti til landsins, stysta vegalengdin er alltaf að sækja eigið grænmeti í garðinn.
Matjurtagarður vs grasflöt: Ég giska á að það fari að minnsta kosti 5000 kr í bensín á sláttuvél yfir sumarið og svo þarftu að eiga sláttuvél sem kostar á bilinu 20000-169000 kr.
Góð grasflöt þarf: góðan jarðveg, að vera slétt, vera með rétt hlutfall af réttu grastegundum, áburð og þarf að vera slegin reglulega.  Almennilegt viðhald grasflatar er ekki til staðar í öllum görðum og þessvegna kannski spurning hvort matjurtagarður væri  heppilegri.
Í matjurtagarð þarf: góðan jarðveg, næringarríkan og rakaheldinn. Hann þarf að innihalda lífrænt efni í moltu formi ( sjá grein svarta gullið Í boði náttúru vorblaðið 2014). Svo þarf göngustíga í matjurtagarðinn. Það þarf líka að stinga garðinn upp, sá fræjum eða kaupa plöntur og planta þeim. Vökva ef rignir ekki. Bera á og reyta illgresi. Svona um það bil jafn mikil vinna og við grasflötina en launin eru ríkuleg uppskera af grænmeti, salati, berjum eða hverju því sem sáð var til.
Ræktunargleðin, nautnin og ánægjan: Því ekki að nýta lóðina í ræktun matjurta? Það gildir líka um blokkar lóðir. Í staði þess að eyða tíma og bensíni í að slá, væri þá ekki sniðugra að nýta tímann, plássið og peningana í að rækta sér til gagns og gamans.
T.d í stað 100 fm2 grasflatar að hafa 100 fm2 matjurtagarð. Hægt væri að rækta klettasalat ,radísur, salat , rauðrófur, rófur, kál, gulrætur, spínat, fennel, sellerí, kartöflur og kryddjurtir eins og myntu, dill, steinselju,rósmarín, skessujurt, hjartafró, graslauk, estragon, timían og salvíu. Ekki má gleyma berjarunnum og rabarbara. Af 100 fm2 er hægt að uppskera 20-40 salathausa, 450 gulrætur, 600 kartöflur, 15 blómkáls hausa og 20 brokkóí hausa. Kryddjurtir fyrir allt sumarið og kannski eitthvað af vetrinum ef þú frystir eða þurrkar þær. Væri þú ekki frekar til í það en að slá?
Það væri líka hægt að útfæra garðinn sinn þannig að það væri ekkert gras, bara tré, runnar, stígar, stétt, pallur, blóm og matjurtir. Eða það lítið af grasi að það væri hægt að slá það með handsláttuvél og fá ókeypis hreyfingu í kaupbæti. Manstu hljóðið í handsláttuvélunum og lyktina af nýslegnu grasi? Svolítið notalegra en hávaðinn af þeim vélknúnu og fnykurinn af bensíninu.
Ef þú býrð í einbýlishúsi ræður þú allveg þínum eigin garði. Það getur ekki verið að það þurfi allt þetta gras við fjölbýlishúsin og það eru örugglega hægt að finna áhugasama nágranna til að standa saman í að gera það sem gera þarf til þess að breytta því.
Engar af tölunum í þessum pistli skal taka 100% bókstaflega. Hvorki tölfræði úr Grafarvogi eða uppskeru af mat.

Góða matjurtagarðs ræktunarskemmtun.





Engin ummæli:

Skrifa ummæli