22. júlí 2014

Mynta og klónun

Ég komst að því að mynta er alveg ótrúlega skemmtileg planta og kryddjurt.
Það er til fjöldinn allur af mismunandi tegundum og svo eru til afskaplega mörg afbrigði af þeim. Hver og ein tegund eða afbrigði hefur sína eiginleika, lykt og bragð. Það gerir þessa kryddjurt afar skemmtilega að nota í eldhúsinu. Það er hægt að búa til alveg heila sögu- eða matreiðslubók, bara um nýtingu hennar í matargerð. Enda er hægt að nota myntu með öllum matarflokkunum, kjöti, fiski, kökum, sælgæti, tei, köldum drykkjum, sósum, kryddlögum, meðlæti eins og hrísgrjónum, kúrskúrsi, baunum og kartöflum. Græni dúskurinn sem maður fær stundum ofan á eftirréttinn eða kökur á veitingahúsum er oft mynta. Kokkar sem eru vel að sér vita líka hvernig þeir eiga að nota mismunandi myntur í ákveðna rétti til fá fram alveg rétta bragðið.
Það eru fleiri kryddjurtir sem hafa þennan fjölbreytileika. Enda höfum við manneskjurnar nýtt okkur þessa eiginleika plantnanna og kynbætt þær og vixlfrjóvgað, til þessa að fá fram ákveðin skemmtileg brögð. Það eru meðal annars chilli, salvía ,timían og basílíkum.
Kryddjurtir hafa olíubelgi (dropa) inni í frumum sínum. Í olíunni eru sérstök efni sem gefa bragðeinkennin. Eiginlega eru þetta efni sem eiga að verja plönturnar frá því að verða borðaðar. Þegar maður mer og nuddar plönturnar fer hluti af olíunni á höndina á þér og þú getur haldið á lyktinni í smá stund áður en hún rýkur eða fýkur út í buskann. Enda eru þetta rokgjarnar olíur. Það eru einmitt þessar olíur sem eru notaðar í ilmvötn. Þetta nota ég meðal annars við að greina í sundur mismunandi myntur, sem sé að strjúka þeim, klappa og lykta svo af höndunum. Fyrir utan líka að smakka á þeim, skoða blöðin og stönglana.
Ég fékk afleggjara frá vinnufélaga mínum af myntu sem hann hafði keypt fyrir ári síðan. Hann var ekki alveg viss um hvers slags mynta þetta væri. Ég komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri basílíkummynta, með ofangreindum aðferðum, og hjálp mjög góðrar bókar. Þegar ég sagði honum hvaða mynta þetta var, varð hann mjög feginn, því það var það sem hann minnti að hafði staðið á plöntuskiltinu, en fannst bara eftir á að þetta gæti ekki staðist, þar sem þetta væri þá tvöföld kryddjurt. Þetta lýsir einmitt hvernig nafngiftir á plöntum geta verið öfugsnúnar og ekki alltaf lýsandi.


gróðursett í pott
Rótarmyndun á afleggjara




Í því samhengi man ég eftir atviki sem kom fyrir vinkonu mína sem var að skoða, að ég held, basílíkum tegundir (það gæti líka hafa verið myntur, skiptir ekki öllu máli) á grænmetismarkaði þar sem sölumaðurinn staðfastlega hélt því fram að að plantan væri blanda af basílíkum og ananas. Vinkona mín var eitthvað vantrúa og spurði mig seinna að þessu. Ég útskýrði fyrir henni að það væri ekki mögulegt að slík planta væri til. Og nú skal ég segja ykkur afhverju:
1. Ananas og basílíkum eru mjög fjarskyldar tegundir sem geta bara ekki átt afkvæmi saman. Það er hægt að skýra á margan hátt sem ég ætla ekki að fara út hér þar sem það eru margir kaflar í lífræðibókinni.
2. Sumir mundu halda sem svo; já en mennirnir gera þetta bara fyrir plönturnar. Það er rétt, mennirnir geta gert þetta og hafa gert eitthvað í líkingu við þetta. Og já, ég hef unnið við að klóna plöntur en ekki ananas og basílíkum. Það er einfaldlega ekki nógu mikill peningur í því. (Það sem ég klónaði var bara til rannsókna undir mjög ströngum rannsóknarstofu aðstæðum þar sem öllu klónuðu var að lokum eytt með efnum, hita og þrýstingi). Til að útskýra þetta aðeins betur hvað mennirnir gera til að hjálpa til við æxlun plantna er hægt að skipta í tvær aðferðir: Önnur heitir kynbætur og hin heitir erfðabreyting eða klónun. Í kynbótum hjálpar maðurinn plöntunum sem eru skyldar að hittast og stunda kynlíf, ásamt að búa þeim kjör aðstæður til vaxtar. Ýmislegt getur komið út úr því. Í raun allt sem er til staðar í genum þessara tveggja planta. Þetta er síðan þróað kynslóð fram að kynslóð og tekur þar af leiðandi ákveðið langan tíma. Við erfðabreytingu gerist þetta mun hraðar. Gen er valið úr einhverri lífveru, t.d. fiski, tómat, bakteríu eða skordýri. Gen sem hefur einhverja þá einginleika sem gerir aðra lífveru lífvænlegri t.d. þol við skordýraeitri. Það er einangrað úr einni lífveru og svo klónað inn í aðra lífveru, t.d. maís plöntu eða byggplöntu. Hún er svo ræktuð og einn, tveir og bíngó, ný lífvera er orðin til; maís með fiska geni. Þetta er auðvitað gert á rannsóknarstofu/rannsóknargróðurhúsi. Niðurstaðan er sú að ananasbasílíkum er alltof sérhæfð og lítið nýtt planta til þess að það sé arðvænlegt að genabreyta henni (enn sem komið er).
3. Þó að hægt sé að klóna saman basílíkum og ananas þá er það heldur ekki leyft alls staðar í heiminium, og þess þá síður að selja svoleiðis genabreyttar plöntur.
En nú aftur að myntunni.
Hún er mjög mikið notuð til að örva meltinguna. Þess vegna er hún afskaplega mikilvæg lækningarjurt. Meltingin er mikilvægur hlutur. Fólk getur dáið úr hægðatregðu. Í arabalöndum er drukkið myntute stanslaust, svipað og við drekkum kaffi og oft eftir máltíðir. Þar eru ekki kaffihús heldur testofur. Það virkar á vissan hátt svolítið gáfulegra en allt þetta kaffi þamb.

pipparmynta í blóma
sweat lemon


Mig langar aðeins í lokin að lýsa nokkrum myntum:
Jarðaberjamynta: Mjög fíngerð, viðkvæm og smávaxin, ekki frostþolin, tilvalin í te og eftirrétti.
Grænmynta: Algeng, foreldri margra hinna myntanna. Góð í nærri allt, t.d myntuhlaup.
Piparmynta: : Fjólublá blóm, loðin, mjög harðgerð, vex hratt og er ágeng, bragðsterk og fersk .Fín í eftirrétti og konfekt. Og flest allt annað
Hrokkinmynta: Er áberandi öðruvísi, með krumpuð laufblöð, ljósgræn, mild og bragðgóð. Hún hentar vel með osti, t.d camenbert innbökuðum.
Sweat lemon: Loðin, gráleit, ilmar aðeins af sítrónu.
Tælensk mynta: Dökkblágræn blöð með fjólubrúnum æðastrengjum: Ég geri ráð fyrir að hún henti í asískan mat, en hef ekki smakkað hana ennþá.
Basilíkummynta: Rauðleitur stilkur og æðar í blöðum, gróf, svolítið breið blöð. Góð í margan mat, salat, meðlæti og með kjöti og fiski.
Hemmingway mynta: Er frá Kúbu, þar sem Ernest Hemmingway bjó lengi. Þar er drukkið mikið mojito enda til nóg af rommi og er hún notuð í þann drykk á ákveðnum bar, þar sem hann var fastagestur og vex myntan í bakgarðinum.
Vatnamynta: Bleik, hnoðrótt blóm sem ilma. Ég minni á að ekki má tína myntu á Íslandi
Til gamans:
Henrik, maður dönsku drottningarinnar, sem er mikill matgæðingur á sér uppáhalds myntu sem er Hrokkinmynta. Það er til Hrokkinmyntugata í Kaupmannahöfn (Krusmyntegade).
Systir mín, hún Guðmunda, býr í Dammörku og er kölluð Munda en margir danirnir kalla hana „Mynte“ (Mynta).



Engin ummæli:

Skrifa ummæli