15. júlí 2014

Kál dásamlegt, brakandi ferskt úr eiginn garði


Kínakál, grænkál, blómkál, svartkál, rauðkál, hvítkál og brokkolí. Það er afskaplega þakklát verk að rækta kál. Þetta eru ótrúlega drjúgar plöntur sem geta gefið mikið af sér. Ef þú er kálæta er ekkert dásamlegra en að fá kálið beint úr garðinum og ferskara en maður getur ímyndað sér.
Ef þú vilt forrækta, hafðu þá þetta í huga:
Kínakál spírar við 15 °C
Brokkolí spírar við 12-15 °C
Blómkál spírar við 10 °C
Kínakál og blómkál þurfa smá aðhlynningu í byrjun, svo það fari ekki í blómstra strax vegna ljósu nóttanna. Svona langar nætur hafa þau áhrif á kálið að það mynda ekki hausa en blómstar bara í staðinn. Til að koma í veg fyrir það þá þarf fyrstu 4-6 vikurnar annað hvort að hafa plönturnar við 20 °C eða myrkur 12-14 tíma á nóttunni sem er hægt að gera með ábreiðslu sem sett er yfir um kvöldmatarleitið.














Ég mæli líka eindreigið með að kaupa tilbúnar kálplöntur í gróðrastöð. Til dæmis ef maður er seinn fyrir með sáningu. Líklega er það eina sem gengur upp núna í ár þar sem svo langt er liðið á sumrið
Kínakálið er sniðugt að binda upp eða réttara sagt að binda lausu bandi utan um kálið svo að blöðin liggi þétt saman svo þau verði föl og girnileg. Annars eru þau mjög græn og með svolítið grófa áferð. Eftir því sem kínakálið vex þarf að víkka bandið svo það fari ekki að skerast inn í laufblöðin.
Þegar fyrstu brokkolí hausarnir myndast, þá þarf að skera þá af svo að myndist nýjir í hliðarskotunum. Einnig er best að uppskera kálið áður en plantan blómstrar.
Eitt vandamál fylgir káli, en það eru ormar sem hakka í sig laufblöðin, alveg upp til angna. Sérstaklega brokkolí. Grænar feitar lirfur. Það er hægt að gera varúðarráðstafanir, sem eru þær að breiða dúk yfir plönturnar þegar þær eru ungar eða setja spjald niður við rótina í kringum stöngullinn. Þannig komast lirfurnar ekki að plöntunni. Dúkurinn virkar líka eins og gróðurhús svo plönturnar vaxa aðeins hraðar. Þegar plönturnar fara að mynda hausa þá er lirfuárásarhættan liðin hjá.
Ef svo illa vill til að lirfurnar eru komnar, þá er bara um að gera að tína þær eina og eina í einu af plöntunni og halda áfram að gera það, þangað til þær eru horfnar. Þetta kallar maður vistvænar varnir. Í mínum huga er eitrun fyrir ormum eða flugum ekki möguleiki. Best er að sætta sig við það almennt séð, að náttúran gefur og tekur. Sum ár er meiri uppskera og önnur ár er minni af ýmsum ástæðum.
Bara ekki gefast upp þó eitt sumar sé lirfusumar! Allt er þetta ræktunarreynsla.
Ísland er kjörið land fyrir kálræktun þar sem jarðvegurinn er rakur og við þannig aðstæður þrífast kálplöntur best. Blómkál þolir t.d mjög illa þurrk. Grænkál og svartkál eru tilvaldar til ræktunar í köldu loftslagi þar sem þær þola þónokkuð frost og þess vegna er hægt að að næla sér í kál frá garðinum langt fram á veturinn.

Góða kálræktunanar skemmtun!!!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli