8. desember 2015

Fjallagrös: NÝTING Á 18 VEGU


Nattúran er óendanleg uppspretta hráefnis í allt mögulegt fyrir okkur mannfólkið sem við látum ofan í okkur og læknum okkur með. En hún er líka uppspretta hugmynda, gleði og andlegrar næringar. Það er til flokkur plantna sem getur uppfyllt þessar þarfir okkar á að minnsta kosti 18 mismunadi vegu og það eru fléttur. Þið fáið lista yfir þessa 18 nýtingar möguleika sem ég hef fundið að fléttur hafa. En það er örugglega margt fleira sem þær eru notaðar í. Þið vitið kannski um átján nýtingar möguleika í viðbót?
Líklega þekktustu flétturnar eru fjallagrös sem heita á latínu Cetraria islandica og eru þar af leiðandi kennd við Ísland. Það eru þau ekki bara á latínu heldur líka á öðrum tungumálum eins og ensku“ icelandic moss“. Önnur þekkt flétta er hreindýramosi sem heitir á latínu Cladonia rangiferina . En fléttur eru hvorki mosi eða gras heldur flétta (mosi er frumstæð planta, þarf líffræðingurinn í mér endilega að koma að). Flétta er frábær uppfinning frá náttúrunnar hendi. Hún er nefnilega sambland eða samband svepps og þörungs eftir því hvernig maður vill orða það. Það er mjög sniðugur lífsmáti þar sem þau nýta eiginleika frá hvorri lífveru fyrir sig. Þörungurinn ljóstillífar og fær þannig orku úr sólinni og sveppurinn heldur í rakann og ver sig þannig gegn hörðu umhverfinu. Algjör snilld við erfiðar umhverfisaðstæður eins og í þurrkum og miklum hitasveiflum. Það er mikilvægt að setja sig inn í hvernig á að tína þessar plöntur. Aðalatriðið er það að ekki taka of mikið á einum stað og ekki þar sem er mengun ef maður ætlar að borða þær. Það er afskaplega hentugt að tína fléttur í rigningu og í bleytu því þá losna þær svo vel frá mosanum.

18 möguleikar að nýta fjallagrös

  1. FJALLAGRASAMJÓLK. Alveg sígildur gæðaréttur. Fjallagrös soðin með mjólk og hunangi
  1. FJALLAGRASABRAUÐ
Grösin eru mjög góð í brauð. Hér er ein uppskrift:
  • 2 handfylli haframjöl
  • 25 gr. ger
  • 2 handfylli fjallagrös sem eru lögð í bleyti í sjóðandi vatn
  • 400 gr.hveiti
  • Volgt vatn
  • Sesamfræ eftir smekk
  • Pínu salt
Hnoða saman. Láta hefast tvisvar sinnum og baka svo við 180 C í 50 mínútur.
  1. GRAUT. Grösin voru notuð áður fyrr sem mjöl sem þykkir grauta.
  1. MAT. Má nota á svipaðan hátt eins og austurlenska sveppi, í pottrétti og pasta.
  1. SEM MJÖL. Það gerði fátækt fólk í gamla daga þegar ekki var hægt að fá almennilegt mjöl á Íslandi. Það var notað í súpur, sósur, brauð og sem ýmis konar uppfylliefni í matargerð.
  1. TE. Svolítið biturt en mjög hollt og gott við eymsli í hálsi.
  1. Í SLÁTUR. Sérstaklega blóðmör.
  1. Í SULTUR. T.d krækiberjahlaup. http://islenskhollusta.is/index.php/is/ber/sultur-sub
  2. ÁFENGI. Í snafs sem er skemmtilega bragðvondur en lítur mjög vel út í flösku.
  1. Í LYF. Plantan er heilmikið rannsökuð. Meðal annars af Kristínu Ingólfsdóttur rektor Háskóla Íslands. Og notað í lyf meðal annars við bólgum í metingarvegi og hálsi.
  1. Í BAKSTRA á þurra húð eða við exemi.
  1. Í HÓSTASAFT
  1. Í HÁLSTÖFLUR
  1. SÁPUR / handgerðar sápur
  1. TIL AÐ LITA FÖT OG GARN. Íslenskur hárauður er einn af þeim litum sem fjallagrösin búa til. En þau geta líka litað gult http://ibn.is/jurtalitun/
  1. TIL SKREYTINGA. Blómaskreytingar og kransa. Kíkið bara kringum ykkur í blómabúðum.
  1. TIL AÐ SITJA Á. Mjúk og þægileg að sitja ásamt mosanum í berjamó. Það fylgir því ákveðin ró að sitja eða liggja á mosa/ fjallagrasa breiðu og skynja náttúruna með sem flestum skynfærum.
  1. TIL AÐ TEIKNA OG HANNA EFTIR. Uppspretta munstur hugmynda. Meðal annars á dúka og tehettur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli