2. september 2014

Hvítlaukur heilsubætandi fæði er óstjórnlegt æði

Hvítlaukur er frábær á svo margan hátt. Ómissandi í matinn og gefur matar- og bragð upplifanir sem eru engu líkar. Hann er hollur og getur læknað ýmsa kvilla. Svo er til fólk sem engan veginn þolir hann og finnst lyktin af honum viðbjóður. Sem sé planta sem getur vakið upp ýmis viðbrög og hughrif. Þess vegna finnst mér tilvalið að skrifa um hann og líka vegna þess að nú er tíminn til að koma honum ofan í moldina til að fá helling af sjálfræktuðum hvítlauk næsta sumar.
Til eru margar gerðir af hvítlauk. Í grófum dráttum er hægt að flokka þær í tvo flokka, hvítlauk með harðan stöngul og hvítlauk með mjúkan stöngul. Harð stöngla hvítlaukur hefur stundum rauðar rendur utan á hýðinu og er bragðbetri eða mildari og veldur ekki hvítlauks andfýlu daginn eftir. Ástæðan er sú að hann hefur ekki þau efnasambönd í sér sem geta myndað fýluna. En aftur á móti geymist hann ekki eins vel og endist ekki í marga mánuði eftir að hann er kominn upp úr jörðinni eins og hvítlaukur með mjúkan stöngul gerir. Þess vegna er harð stöngla hvítlaukurinn miklu sjaldnar til sölu í matvörubúðum.






Að rækta hvítlauk er svo einfalt og auðvelt. Hann er gróðursettur upp úr ágúst og fram í desember, áður en frystir. Stór heil rif eru sett niður 5-10 cm ofan í jörðina með 10 cm millibili og með 15 cm bili á milli raðanna. Það er hægt að breiða lauf, greinar og/eða dúk yfir laukabeðið til að verja það gegn mesta frostinu. En það er ekki nauðsynlegt. Eftir að minnsta kosti 3 vikur koma upp nokkur hvítlaukslaufblöð sem fara síðan í dvala yfir kuldaskeiðið. Þau lifna svo aftur við með vorinu og þá heldur laukurinn bara áfram að vaxa og blöðin verða stærri og fleiri. Það getur myndast blómhnúður og stundum vex stöngullinn og blómið í lykkju sem er svolítið fyndið. Þegar líða tekur á sumarið fara blöðin að þorna á endunum og lafa niður. Þá er kominn tíma til að taka hvítlaukinn upp. Ef laufblöðin eru búin að vera gul og lafandi í viku eða meira er orðið nokkuð ljóst að hvítlaukurinn vex ekki mikið meira. Það er oftast í júlí /ágúst. Hvítlaukurinn er þá grafinn varlega upp. Þetta er eftirvæntingarfull stund eins allar stundir þegar maður grefur upp grænmeti. Þegar búið er að taka hvítlaukinn upp er mikilvægt að þurrka hann vel, og dusta af mestu moldina. Hann þarf að vera alveg þornaður áður en hann fer inn í ísskáp því annars rotnar hann. Það er líka hægt að geyma hann á þurrum, dimmum stað. Annar möguleiki er að flétta saman stönglana og búa þannig til hvítlauksknippi.
Á vaxtartímanum er hægt að klippa aðeins af grænu laufblöðunum og nota í mat. Það er milt hvítlauksbragð af þeim. Ég hef stundum tekið forskort á sæluna og tekið upp einn og einn lítinn hvítlauk um vorið eða snemmsumars. Hvítlaukur vex á sólríkum stað og þarf áburð til að vaxa vel.
Hvítlaukur er ótrúlega skemmtilegur hlutur að monta sig af að vera sjálfbær með. Ég hef í mörg ár bara sett niður hvítlauksrif sem ég hef keypt úti í búð. Sem alltaf hefur virkað. Ég hef þó heyrt að það geti gerst að búðar hvítlaukur spíri ekki. Þess vegna bendi ég líka á að hægt er að kaupa hvítlauk í gróðrastöðvunum.

Að lokum vil ég mæla með einni frábærri aðferð við að elda og borða hvítlauk. Það er að grilla eða baka í ofni heila hvítlauka, og smyrja svo innhaldinu ofan á brauð, kannski með smá olíu, smjöri eða kryddjurtum. Mhmm

Engin ummæli:

Skrifa ummæli