2. desember 2014

Könglar og náttúruskraut






Það er ekkert fallegra skraut til en það sem kemur frá náttúrunni.
Ég er heilluð af greni og könglum. Ilmurinn af greni er ólýsanlegur. Það er æðislegt að hafa ástæðu til að fara út á þessum árstíma til að tína sér efni í skreytingar. Ferskt loft, frostbitnar kinnar og rok og rigning sem gerir að ég sé ekki út um gleraugun.  Eða ef maður er heppin(n) skín sólin lágt á lofti og gyllir náttúruna eins og henni einni er lagið. Það er svo margt sem er hægt að nýta. Greni, köngla, strá, ber og fræhirslur.
Könglar vaxa á barrtrjám sem á venjulegu máli kallast grenitré eða tré með greninálum. Svoleiðis tré kallst á grasafræði máli berfrævingar. Sem þýðir í raun að fræið er nakið með enga plöntuvefi í kringum sig eða laust. Ef borið er saman við blómin þá er það mjög bert þar sem fræið hjá blómum myndast inni í blóminu. Eða eins og við sjáum það þegar það er orðið að fræi inni fræhirslu eða fast á blómbotninum. Köngla fræin eru ekki alveg nakin því það er hreistur. Eftir því sem köngullinn þroskast  verður hann mjög gisinn svo fræið auðveldlega dettur út. Þá fljúga þau á vængjunum sem þau eru með.
Það eru  óhemju margar tegundir barrtrjá til í heiminum og þess vegna eru til svona líka margar mismunadi gerðir, stærðir og lögun á könglum. Nokkrar tegundir vaxa hér á landi. Lerki er ein af þeim og eru könglar lerkis mjög fallegir, litlir og margir.
Könglar eru mjög breytilegir að strærð og í útliti frá allt frá 2 cm -50 cm á lengd og þyngstu könglar í heimi eru 50 kg. Könglar finnst mér alveg sérstaklega fallegir. Þeir eru byggðir upp með þétt röðuðum hreisturflögum. Hvert einsta hreisturgrein á þeim er allveg nákvæmlega á réttum stað. Þeir eru með mjög nákvæma stærðfræðilega byggingu.  Ef furuköngull er skoðaður nánar sést greinilega að hreistrin raðast í spíral. Hvert hreistur er hluti af 2 spírölum, annar þeirra hefur 13 brautir til hægri og hinn 8 brautir til vinstri. Fjöldi spíralbrauta í hvora átt er ekki alltaf sá sami á öllum könglum. En fjöldi spríalbrauta er alltaf fibonacci tala.
Fibonacci röð er talnaröð sem byrjar með 0 og 1, þar sem hver tala er summan af síðustu tveimur tölum sem eru á undan í röðinni. Sem sagt: 0,1,1,2,3,5,8,13,21,34,55,89… og svo framvegis. Vegna þess að hreistrin raðast á þennan hátt, smella þau þétt saman og nýta plássið á könglinum til hlýtar. Það myndast engar rifur á milli hreistranna. Á furukönglinum eru tölurnar 8 og 13 lagðar saman og gefa 21. Sama mynstur kemur fyrir hjá ýmsum örðum plöntum t.d blómkáli, sólblómum og anans. Þannig sér náttúran um að nýta plássið vel þar sem það er lítið. Náttúran er góður stærðfræðingur og á þennan máta má segja að stærðfræði sé falleg.

Jólaskraut þarf ekki að vera flókið. Fyrir mér er fegurðin fullkomnuð af náttúrunni sem setur fram sérhannaðar og stærðfræðilega útreiknaðar kúlur sem kallast könglar. Greni gefur dásamlegan ilm og ef maður vill fá liti í skreytinguna bætir maður við appelsínum, mandarínum eða eplum. Jólaskreytingar gerðar með efnivið úr náttúrunni er hægt að vefja í krans, setja í skál, fat eða það sem hendi er næst og gleður auga þitt.
Ég set gjarnan mína jólaskreytingu í skál. Af og til kaupi ég kókoshnetu og granatepli og skelli með í skálina og þá er ég líka komin með ástæðu til þess að setja eitthvað öðruvísi í salatið í desember.